Hvaða litir eru í uppáhaldi hjá þér?
Litir segja merkilega mikið um okkur og ekki bara hvaða smekk við höfum eða hvort við fylgjum nýjustu tísku.
Þú hefur sjálfsagt veitt því athygli að þegar þú ferð í fataverslun þá leita augun oftast í átt að sömu litunum aftur og aftur svo nokkuð ljóst er hvað heillar þig. Rannsóknir sýna að þetta sé sammerkt flestum okkar, samt erum við ósköp leiðitöm í því hvaða litum við klæðumst og kaupum á okkur. Eðlilega þar sem máttur auglýsinga er mikill og stundum er ekki einusinni boðið upp á okkar liti svo hvað getur maður gert annað en að fylgja straumum sem renna stríðast allt í kringum okkur.
Annað sem rannsakað hefur verið er að við veljum sömu liti í hýbýlin okkar og við veljum á okkur sjálf, þetta er að því í gefnu að þinn smekkur fái einhverju um ráðið um liti á veggjum, húsgögnum og skreytingum osf.
Hvaða litir eru í tísku í vetur og hver leggur línuna
Við getum leitað fanga á stóra leiksviðinu þar sem framleiðendur og tískuhönnuðir kynna okkur hvernig þeir sjá næstu strauma á allra næstu árum. Framleiðandinn spáir amk. 2 ár fram í tímann og fatahönnuðir, innanhúshönnuðir, vöruhönnuðir vinna með þeim eða taka við keflinu eftir þeirra framboði og tillögum. Vissulega byrjar tískan oft á götunni, hjá okkur almenningi og leitar upp á við, stundum er þetta hin eilífa spurning um það hvort kom á undan eggið eða hænan.
Í vetur eru nokkrir litir sem eru áberandi og stemma við litaspár sem voru gerðar fyrir nokkrum ársstíðum.
Vínrautt – burgundy – bordeaux – rauðbrúnt – kirsuberjarautt eða útgáfa af þessum tónum eru áberandi í haust og endurvarpar munaði og fágun, við sjáum þennan lit í fylgihlutum, skóm, veskjum, slæðum osf. Yfir í dragtir, kjóla, buxur, peysur osf.
Þessi litur passar vel með hlutlausari litum eins og til að mynda kakí grænum, fölbleikum og við sjáum boðið upp á þennan lit í fjölmörgum verslunum.
Ólívugrænt ásamt fjölda grænna tóna sem falla undir þennan náttúrulega lit.
Þessir dásamlegu grænu tónar ættu að klæða flesta og samsetningin með öðrum litum haustsins á borð við drappað, svart og fjólubláa tóna. Þetta er litur sem við sjáum í fatnaði frá ódýrustu fatamerkjunum til þeirra dýrustu. Allt spurning um gæði efna og samsetningu með öðrum fatnaði.
Súkkulaði brúnt, djúpur brúnn eins og fljótandi bráðið súkkulaði er litur sem alltaf er í boði í leðurfatnaði s.s. leðurjökkum, veskjum, beltum oþh. En í vetur er boðið upp á buxnadragtir, kjóla, peysur osf. Þessi litur parast líka vel með öðrum litum haustsins, öllum vínrauðu litunum og grænu tónunum sem eru hlýjir og kósí.
Eggaldin fjólublár – Aubergine – er djúpur fjólublár litur sem hæfir konungbornum enda fágaður og glæsilegur. Nú er aðventan á næsta leiti þar sem fjólublár er litur aðventunnar er ekki verra að fatamerki bjóði þennan lit núna. Blandað með hlutlausum gráum tónum og grænum tónum sjáum við fágum og glæsileika.
Drappað er einn af hlutlausu litunum sem alltaf eru vinsælir, sjáum t.d. hinn sígilda rykfrakka sem á alltaf við. Ýmsir tónar af beige eru alltaf í boði og skiptir máli að para þá með öðrum lítum til að ná fram ‚réttu‘ áhrifunum. Þessi sígildi litur er góður grunnur í hvaða fataskáp sem er og ótrúlega margir litir parast með honum eins og nokkrir litir haustsins á borð við brúna, sterk bláa og vínrauða.
Bláir tónar eru alltaf í boði rétt eins og beige t.d. sterkblái liturinn, gallabuxnabláir og pastelbláir tónar ásamt hinum sígilda dökkbláa (navy).
Þessir litir sem ég nefni hér eru bara sem betur fer hluti af því framboði sem fataframleiðendur og tískumerki bjóða okkur upp á í vetur.
Svart er sterkt ef þú ert því frá toppi til táar, svart og hvítt er einnig mjög sterk samsetning og vekur alltaf áhuga.
Veldu þér liti eftir þinni tilfinningu og gerðu að þínum lit og þú átt alltaf eitthvað fallegt að fara í.